Sagan á gamalli öld og nýrri
Stórbýlið Egilsstaðir stendur á fjölförnustu vegamótum Austurlands. Þar hefur ætíð verið mikill gestagangur og því ekki tilviljun að á staðnum var opnað gistihús, sem seinna varð Gistihúsið Egilsstöðum. Hefur það nafn lifað góðu lífi þrátt fyrir að Gistihúsið sé löngu orðið hótel og heiti nú Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir.
Saga gistingar á þessum stað nær allt aftur til ársins 1884, en þá taldi Eiríkur Halldórsson ábúandi á Egilsstöðum sig tilneyddan að hefja gjaldtöku fyrir gistingu sökum bágs efnahags. Þar með hófst í raun rekstur gistihúss á Egilsstöðum og hefur hann haldist svo að segja óslitinn fram á þennan dag.
Árið 1889 keyptu Jón Bergsson og Margrét Pétursdóttir jörðina Egilsstaði og er það upphafið að sögu ættar þeirra á þessum stað. Jón mun hafa lýst því yfir í heyranda hljóði að á Egilsstöðum yrðu vegamót og urðu það orð að sönnu. Í dag búa niðjar Margrétar og Jóns í sex húsum í landi Egilsstaða.
Grunnurinn lagður árið 1903
Elsti hluti þeirrar byggingar er hýsir Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir var reistur árin 1903-1904. Í tíð Margrétar og Jóns var þar boðin gisting í 2-3 herbergjum. Húsið var þá tvílyft með kjallara og með elstu húsum sem byggð voru úr steinsteypu á Fljótsdalshéraði. Það var svo stækkað um næstum helming, til norðurs, árið 1914 og lauk framkvæmdum 1920.
Eftir að Jón Bergsson lét af búskap tóku synir hans Pétur og Sveinn við búinu. Bjó Pétur ásamt konu sinni Elínu Stephensen í eldri hluta hússins, en Sveinn kvæntist Sigríði Fanneyju Jónsdóttur og bjuggu þau í nýrri hlutanum. Systur þeirra bræðra, Sigríður og Ólöf, héldu einnig heimili á Egilsstöðum og bjuggu í íbúð á efri hæð eldra hússins. Sveinn og Sigríður Fanney tóku við rekstri Gistihússins Egilsstöðum árið 1920. Í hálfa öld ráku þau Sigríður Fanney og Sveinn gistihúsið og mörkuðu varanleg spor í sögu Fljótsdalshéraðs með framfarahug og atorku.
Enn byggt við
Enn var byggt við og húsið lengt að norðanverðu árið 1947. Byggðir voru stigar frá kjallara upp í rjáfur, vatnssalerni tekin í gagnið og byggðir kvistir á ytri hluta hússins. Innréttuð voru tíu tveggja manna gistiherbergi. Starfsemin var fjölbreytt, því auk gistingar var í húsinu Verslun Jóns Bergssonar, matvæla- og korngeymsla, pósthús og símstöð, sem starfrækt var fram til ársins 1952. Þar fór í gegn fyrsta langlínusamtal Íslendinga um símstreng frá Seyðisfirði.
Tveir myndarlegir trjágarðar standa fljótsmegin hótelsins og eiga sér merka sögu. Sigríður Jónsdóttir gerði fagran skrúðgarð í kringum 1910 og þótti það nýlunda til sveita. Á rústum gamla torfbæjarins á Egilsstöðum byggði Sveinn Jónsson upp trjágarð um 1930. Var gerður utan um garðinn fallegur veggur úr steinsteyptum einingum og vakti einnig athygli.
Ásdís Sveinsdóttir, dóttir Sveins og Sigríðar, eignaðist Gistihúsið og tók við rekstri þess árið 1970. Hún lét mikið að sér kveða í gisti- og veitingarekstrinum og annaðist hann vakin og sofin í átján ár, eða fram til 1988. Næstu fimm árin önnuðust utan að komandi aðilar reksturinn og varð svo nokkurra ára hlé á honum.
Vatnaskil hins gamla og nýja
Árið 1997 urðu vatnaskil. Þá keyptu hjónin Hulda Elisabeth Daníelsdóttir og Gunnlaugur Jónasson Gistihúsið. Gunnlaugur er sonur Margrétar Pétursdóttur, sonardóttur Jóns Bergssonar og Margrétar Pétursdóttur og þar með var hótelið á nýjan leik komið í hendur Egilsstaðaættarinnar.
Þau Hulda og Gunnlaugur gerðu á rúmlega áratug umfangsmiklar endurbætur á eldri hluta hótelsins. Þau lögðu alúð við umbæturnar og ríka áherslu á að halda hinum gömlu innviðum til haga, sem og virðulegum og umfaðmandi anda hússins.
Á fyrstu árum nýrrar aldar fóru hjónin að velta fyrir sér hvort stækka bæri hótelið og þá með hvaða hætti. Vandasamt getur verið að bæta nýju við gamalt þannig að samræmi haldist. Þau skoðuðu ýmsar hugmyndir og tillögur en í október árið 2013 var tekin skóflustunga að nýrri 1500 m2 byggingu sunnan við gamla húsið. Tekið var á móti gestum í nýrri gestamóttöku og gistiálmu hálfu ári síðar og verður það að teljast vel af sér vikið í svo stórri framkvæmd.
Auk móttökunnar í tveggja hæða byggingu voru byggðir tveir lyftuturnar og fjögurra hæða hús með 32 herbergjum. Fjögur þeirra eru lúxusherbergi og 6 eru hönnuð sérstaklega með þarfir fatlaðra í huga. Á neðri hæð móttökuhússins er heilsulindin Baðhúsið – Spa, með heitri smálaug, köldum potti, sánu og hvíldaraðstöðu með útsýn yfir Lagarfljót. Að auki eru í nýbyggingunni þvottahús, starfsmannaaðstaða, snyrtingar, geymslu- og skrifstofurými.
Bárujárn og gamlir viðir
Sem dæmi um hvernig reynt var að tengja anda gamla Gistihússins við hina nýju byggingu og skapa flæði á milli þeirra, má nefna að rauðar bárujárnsplötur af þaki gamals gripahúss, sem varð að víkja fyrir byggingarframkvæmdunum, voru m.a. nýttar í innréttingar í gestamóttöku. Eldri hluta hótelsins hefur einnig verið umbreytt að hluta, enda renna nú fallega saman eldri byggingin frá árinu 1903 og sú yngri frá 2014 og mætast í rauninni gömul öld og ný. Tré sem þurfti að fjarlægja vegna byggingarframkvæmda nýttust á fallegan hátt í borðplötur í veitingarými, sem kollar innan húss og utan og í ýmislegt fleira innanstokks. Voru þetta viðir af reyni, öspum og birki. Gamlir sexrúðugluggar með einföldu gleri voru varðveittir þegar gluggar voru endurnýjaðir og nokkrir settir í heilu lagi upp á veggi veitingastaðar hótelsins. Í stað þess að horfa fyrr á tíð út um þá til samtímans, má nú að vissu leyti horfa inn um þá, til fortíðar hússins. Á veggjum hanga einnig gamlar ljósmyndir og málverk sem tengjast staðnum og fólkinu sem þarna hefur búið og starfað frá öndverðu. Þá ber að halda því til haga að á frumbýlingsárum sínum á hótelinu nýttu Hulda og Gunnlaugur gamlan stiga milli hæða, sem þurfti að víkja, sem efnivið í gestamóttöku og bar og lukkaðist það frábærlega, enda hagleikssmiðurinn Frosti Þorkelsson þar að verki, sem og víðar í húsinu. Öll hönnun innanstokks hefur verið í höndum húsfreyjunnar Huldu, frá því að þau Gunnlaugur hófu hótelreksturinn og er það samdóma álit þeirra sem til þekkja að þar gæti mikillar smekkvísi og jafnframt frumlegrar og virðingarverðrar nálgunar við gamla muni í nútímasamhengi. Gunnlaugur húsbóndi á síðan ófá handtökin við endurbætur eldri byggingarinnar sérstaklega og hefur verið vakinn og sofinn yfir rekstrinum líkt og fyrirrennarar hans áður.
Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir er svipmikið hótel með öllum nútímaþægindum en um leið er það hlýlegt og umvefjandi. Gestir geta valið um velbúin og rómantísk antík-herbergi í eldri hlutanum eða nýtískuleg og stílhrein herbergi yngri byggingarinnar. Sameiginlegt rými er í móttökusal og er þar einnig glæsilegur bar með góðu úrvali drykkja. Veitingastaður hótelsins, Eldhúsið – Restaurant, hefur getið sér orðs og eru metnaður og alúð þar allsráðandi. Matargerðin er sprottin úr traustum hefðum, en hráefnin gjarnan sett í nýtt og framsækið samhengi. Hráefni er ætíð fyrsta flokks, að mestu íslenskt, gjarnan lífrænt og oftast fengið úr næsta nágrenni, enda er leitast við að nýta og kynna afurðir úr héraði. Austfirskar krásir og Beint frá býli eru þar í öndvegi.
Glæsileg heilsulind, Baðhúsið – Spa, er á jarðhæð hótelsins, með heitri smálaug, sánu, köldum potti og hvíldarsvæði innan og utan dyra. Einkar fallegt útsýni er yfir Lagarfljót frá heilsulindinni. Lögð er áhersla á rólegt, slakandi og endurnærandi umhverfi.
Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir er innan vébanda félagsins Ferðaþjónustu bænda. Starfsfólk er um 40 manns; einvalalið sem hefur vellíðan og ánægju gestanna í fyrirrúmi.
Gunnlaugur og Hulda ásamt börnum sínum bjóða þér að njóta gestrisni og góðs aðbúnaðar í fögru umhverfi við Lagarfljót og vona að þú njótir dvalarinnar.