LAGARFLJÓTSORMURINN

Lagarfljótsormurinn er vatnaskrímsli sem talið er, samkvæmt þjóðsögum og nýlegri frásögnum fólks, að lifi í Lagarfljóti á Fljótsdalshéraði. Ormsins er fyrst getið í annálum árið 1345 og má lesa um hann í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Segir sagan að ormurinn hafi í fyrstu verið lítill lyngormur, sem settur var á gullhring. Þannig átti gullið að vaxa. Þegar eigandi hringsins, stúlka, kom að nokkru síðar, sá hún sér til mikillar skelfingar að ormurinn hafði stækkað gríðarlega en hringurinn ekki. Kastaði hún þá hringnum og orminum í Lagarfljót þar sem ormurinn hélt áfram að vaxa. Sagan öll hér að neðan.

Sést mun hafa til Lagarfljótsormsins í allnokkur skipti hin síðari ár, bæði af heimafólki og gestkomandi, ungum og öldnum. Fræg er sagan af lagningu símakapals laust eftir 1980 og þurfti að fara með hann yfir Lagarfljót á milli Hallormsstaðar og Geitagerðis og var það mikið fyrirtæki. Farið var m.a. með dýptarmæli yfir Fljótið þar sem leggja skyldi kapalinn og sást þá til ormsins í nk. holrými undir austurbakkanum. Kapallinn var vafinn stálvír og rammger og átti ómögulega að geta orðið fyrir hnjaski. En þar sem holrýmið var og sést hafði til ormsins urðu á strengnum 22 bilanir og hann tættur mjög. Auðvitað er orminum kennt um.

Efagjarnara fólk tekur til þess að í vatni eins og Lagarfljóti geta plöntuleifar sem hafa safnast saman og rotnað á vatnsbotninum myndað mýrargas og gosið upp í dökkum, bogamynduðum strók. Það er svipað fyrirbrigði og hrævareldar yfir mýrum. Það, ásamt því að í vatninu eru klapparhryggir sem vatn brýtur á kann að útskýra sögur um Lagarfljótsorminn.

Í bók sinni Lagarfljót, Mesta vatnsfall Íslands, segir Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur: ,,Á fyrri tíð voru birtingar Lagarfljótsormsins taldar boða mikil og váleg tíðindi. Á næstliðinni öld hefur hann áunnið sér tiltrú á nýjum forsendum og fáir Héraðsbúar eru reiðubúnir að afneita tilveru hans. Ýmsir líta á Orminn sem landvætt og verndaranda Fljótsdalshéraðs sem beri að sýna tilhlýðilega virðingu; hann sé að jafnaði ósýnilegur, en geti þó birtst í ýmsum gervum og gefið tilveru sína til kynna með ýmsu móti, jafnvel með aðstoð náttúrufyrirbæra, en það séu forréttindi dulskyggns fólks að sjá hann í sinni réttu mynd. Þarmeð hefur Ormurinn í Lagarfljóti kannski öðlast sinn eðlilega og réttmæta sess, sem hann gæti hafa haft við upphaf byggðar, þegar landvættir voru viðurkenndur þáttur í til-verunni.“

Það bar til einu sinni í fornöld, að kona nokkur bjó á bæ einum í Héraðinu við Lagarfljót. Hún átti dóttur eina vaxna. Henni gaf hún gullhring.

Þá segir stúlkan: „Hvernig get ég haft mest gagn af gullinu því arna, móðir mín?“

 

„Leggðu það undir lyngorm,“ segir konan.

 

Stúlkan tekur þá lyngorm og lætur gullið undir hann og leggur ofan í trafeskjur sínar. Liggur ormurinn þar nokkra daga. En þegar stúlkan fer að vitja um eskjurnar, er ormurinn svo stór orðinn, að eskjurnar eru farnar að gliðna í sundur. Verður stúlkan þá hrædd, þrífur eskjurnar og kastar þeim með öllu saman í fljótið.

 

Líða svo langir tímar, og fara menn nú að verða varir við orminn í fljótinu. Fór hann þá granda mönnum og skepnum, sem yfir fljótið fóru. Stundum teygðist hann upp á fljótsbakkana og gaus eitri ógurlega.

 

Þótti þetta horfa til hinna mestu vandræða, en enginn vissi ráð til að bæta úr þeim. Voru þá fengnir til Finnar tveir. Áttu þeir að drepa orminn og ná gullinu. Þeir steyptu sér í fljótið, en komu bráðum upp aftur. Sögðu Finnarnir, að hér væri við mikið ofurefli að eiga og væri ekki hægt að bana orminum eða ná gullinu. Sögðu þeir, að annar ormur væri undir gullinu og væri sá miklu verri en hinn. Bundu þeir þá orminn með tveimur böndum. Lögðu þeir annað fyrir aftan bægslin, en annað aftur við sporðinn.

 

Ormurinn getur því engum grandað, hvorki mönnum né skepnum, en við ber, að hann setur upp kryppu úr bakinu, og þykir það jafnan vita á stórtíðindi, þegar það sést, t.d. harðæri eða grasbrest.

Þeir, sem enga trú leggja á orm þenna, segja, að það sé froðusnakkur, og þykjast hafa sagnir um það, að prestur nokkur hafi ekki alls fyrir löngu róið þar þvert yfir, sem ormurinn sýndist vera, til að sanna þeð því sögu sína, að hann sé enginn.

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862)

þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Lagarfljót. Mesta vatnsfall Íslands. Höf. Helgi Hallgrímsson. Skrudda, 2005.

Í bókinni má finna yfirgripsmestu samantekt sem gerð hefur verið á staðháttum, náttúru og sögu Lagarfljótsins. Þ.á.m. er geysilega forvitnilegur kafli um Lagarfljótsorminn (bls. 307-351) sem enginn áhugamaður um skrímslið má láta fram hjá sér fara. Bókin er orðin ófáanleg í verslunum en aðgengileg í bókasöfnum landsins.

 

Austfirskar skrímslasögur. Austfirsk safnrit IV. Dagný Bergþóra Indriðadóttir tók saman. Útg. Skriðuklaustur 2007. Í kverinu eru hátt í tug frásagna af Lagarfljótsorminum og einnig af selnum og skötunni sem munu einnig búa í Fljótinu. Kverið mun fáanlegt i bókaverslunum, söfnum og á Skriðuklaustri.

 

Lagarfljótsormurinn, teiknimyndasaga

Höfundur: Huginn Þór Grétarsson

Óðinsauga útgáfa, Mosfellsbær 2010

http://www.odinsauga.com/previews/iclakewormprev.pdf

 

Nemendahópur í Hallormsstaðaskóla varð vitni af undri í Lagarfljóti. Heimspekingurinn Gunnar Hersveinn heimsótti þau og sökkti sér ofan í ormsfræðin.

http://skoli.eu/umhverfis/austurland/

1. Hringur Jóhannesson gerði fyrir tæpum fjórum áratugum myndverk á langvegg f.v. byggingar Kaupfélags Héraðsbúa á Egilsstöðum og má þar sjá orminn skjóta upp kryppum sínum.

2. Lagarfljótsormurinn sem Hjörtur Kjerúlf bóndi á Hrafnkelsstöðum myndaði.

3-4. Ekki liggur ljóst fyrir hverjir ljósmyndaranir voru sem náðu þessum myndum, en þær eru feng-nar af internetinu.

5. Sölvi Aðalbjarnarson er einkar hagur og hefur m.a. gert skúlptúr í járn af Lagarfljótsorminum. Listaverkið stendur við hús hans í Einbúablánni á Egilsstöðum.

Hjólakeppni í kringum Lagarfljótið, árlega frá 2012, Ungmenna og íþróttasamband Austurlands, í samstarfi við ferðaþjónustufyrirtækið Austurför og með stuðningi Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, hefur staðið fyrir hjólreiðakeppninni Tour de Ormurinn hin síðari ár. Boðið hefur verið upp á 68 og 103 km leiðir.

 

Keppendur eru ræstir úr Hallormsstaðarskógi klukkan 9:00 að morgni og hjóla þaðan út í Egilsstaði, norður yfir Fljót, upp Fellin og inn í Fljótsdal. Þar velja menn um lengri eða styttri hring en endamarkið hefur verið í Hallormsstaðarskógi.

 

Umhverfis Orminn langa sem er 68 km hringur er farið yfir nýjustu brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal, neðan við Hjarðarból (utan við Hengifoss). Fyrstu tæplega 40 km eru á bundnu slitlagi, síðan tekur við um 20 km malarvegur og loks endað á klæðningu.

 

Þessa vegalengd er bæði hægt að taka í einstaklingskeppni og liðakeppni. Í liðakeppni keppa þrír saman í liði og er hringnum þá skipt í þrjá leggi um 26 km, um 24 km og um 20 km.

 

Hörkutólahringurinn er 103 km hringur, farin sama leið og í styttri hringnum, þar til kemur að ,,nýju” brúnni yfir Jökulsá í Fljótsdal, þá er haldið áfram inn Norðurdal og farið yfir innstu brú yfir Jökulsá í Fljótsdal, (9 km kafli á grófum malarvegi) og haldið áleiðis út Fljótsdal og út í Hallormsstaðarskóg (um 8 km á malarvegi og svo bundið slitlag síðustu 5 km). Eingöngu er boðið upp á einstaklingskeppni í þessari vegalengd.

 

Keppnin er hluti af Ormsteiti og er einatt líf og fjör í Hallormsstaðaskógi þegar keppendur koma í mark.

 

Keppt er í flokkum karla og kvenna og lágmarksaldur keppenda 14 ára. Í liðakeppni er einnig keppt í opnum flokki, þ.e. lið mega vera blönduð jafnt sem lið karla og lið kvenna.

Af vef UÍA: www.uia.is

The Iceland Worm Monster (Lagarfljóts Worm) Caught on Camera[Original]

 

Icelandic lake monster Lagarfljot Worm seen again

 

Lake monster seen in Iceland Original HQ uncut version

 

Iceland Loch Ness Monster footage is genuine. Panel authenticates film of Lagarfljótsormurinn.

 

Cryptids and Monsters: Lagarfljót Worm, the Iceland Worm Monster

https://www.youtube.com/watch?v=MmMjO…

 

Iceland Worm Monster Here? Lake Lagarfljot – Myth, Real or Hoax? July 7, 2012

 

Giant Snake? Is This The Legendary Worm Monster Of Iceland? Lagarfljóts Worm

https://www.youtube.com/watch?v=5U9khRVQ_sw

(Eptir bréfi Hans sýslumanns Wíum í Múlasýslu 1750).

Þessi skrýmsli hafa opt sézt, en einkum 1749 og 1750. Frá því um vorið 1749 og til þess haustið 1750 sáust þau öðru hvoru af valinkunnum mönnum. Pétur lögsagnari í norðurparti Múlasýslu og tveir menn aðrir sáu eitt frá Ketilstöðum á Völlum, en einga mynd gátu þeir deilt á því. Aðrir tveir menn fóru saman samdægurs, og hitt bar fyrir þá Pétur, uppeptir Fellunum. Þeir sáu fyrir utan Arneiðarstaði skepnu nokkra fara upp eptir fljótinu, á vöxt við stóran sexæring, og fór hún hart mjög; þetta sama sá og alt fólkið í Hafursgerði, sá bær er skamt þaðan. Þriðji maðurinn fór einnsaman sömu leið, og hinir tveir; hann sagðist og hafa séð eitt skrýmslið skamt undan landi sem sel, en leit út á belginn, sem skata, þegar hún er dregin úr sjó; þessi skepna stakk sér þegar aptur með miklum boðaföllum. Þessir þrír menn komu að Arneiðarstöðum um kvöldið, og sögðu frá því, sem fyrir þá hafði borið. En á meðan þeir voru að segja frá þessu, sáu þeir allir í einu skrýmsli þar niður undan bænum; var það fyrir víst 30-40 faðma á leingd með háum hnúk upp úr bakinu og einn þeirra þóktist sjá ánga fram úr því og aptur, sem lágu lángt út í fljótið. Alt voru þetta sannsöglir menn og vandaðir. Auk þessa hafði alt Arneiðarstaða fólkið séð skrýmslið bæði fjarri og nærri landi þar undan bænum en hefir það aldrei getað séð svo skapnað þess, að það hafi getað lýst honum greinilega. Eptir þetta sá alt fólkið í Hrafngerði þrjá hnúka upp úr fljótinu, alt að því heilan dag, og vatnaði í milli þeirra allra mörg hundruð faðma, eptir því sem bóndinn hafði frá skýrt. Einu sinni var Hans Wíum nótt á Arneiðarstöðum, en um morguninn voru prestarnir séra Hjörleifur, séra Magnús og séra Grímur þar og staddir, og sáu þeir allir í stillilogni og bezta blíðviðri blástur rétt yfir undan í fljótinu, sem hvalblástur, en þó var hann öllu meiri. Þá voru menn farnir út eptir fljótinu í flutning, og sáu þeir skamt þaðan, sem blásturinn var, við líkt og varða væri upp úr fljótinu. Þegar þeir höfðu horft á það nokkra stund, tók það til rásar upp að landi. Aldrei hafa þó orðið meiri brögð að þessum sjónum, en vorið og sumarið 1750; því þá sáust skrýmslin í ánum upp frá fljótinu, þrjú undan Hrafnkelsstöðum, tvö í hestlíki, með brúska upp úr hnakkanum og hnúð á hryggnum, og voru þau svört til sýndar. Eitt þeirra rétti upp tvær trjónur, og vatnaði yfir á milli. Þár að auki lagðist eitt á land fyrir utan Víðivelli, og sáu það þrír menn. Annað lagðist á land hjá Hreiðarstöðum og sagði bóndinn þar svo frá því, að það hefði verið sem stærsta hús. Miklu optar hafa slík skrýmsli sézt í Lagarfljóti, og þar á meðal vorið 1819. Sást það þá fyrst við ísbrúnina, þar sem fljótið var autt við landið, fram undan Hafursá. Það var eptir ágizkun þeirra, sem það sáu, hér um bil tvær til þrjár teigshæðir frá landi, grátt á að sjá og í lögun, sem hestur stæði á höfði og lendin upp; en hvorki sáu þeir fætur né ánga neina út úr því. Þetta sást fyrst á laugardag; svo fluttist það með ofur hægri ferð, móti straumi og hægum vindi, upp á móts við Hallormstað, og þar hvarf það loksins sunnudaginn næstan eptir. Meðan á þessu stóð, var ísinn að reka út eptir fljótinu. Sjónarvottar að þessu voru þeir séra Gunnlaugur á Hallormstað og Hinrik á Hafursá og margir fleiri. Einn þeirra, sem þetta sáu, vildi skjóta í það; en hinir vildu ekki lofa honum það. Ekki var neinn bátur við höndina, enda mundu fáir þeirra, sem sáu skrýmslið, hafa árætt út að því; því þeir voru eingar kempur, nema það hefði verið sá, sem vildi skjóta á það.

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (bindi 1)

Guðbrandur Vigfússon

Dýrasögur

,, … margar sögur hafa farið af ormum og skrímslum sem sézt hafa hér og hvar bæði í vötnum á Íslandi og í sjónum. Til þeirra sagna er brekkusnigillinn eða þó öllu heldur lyngormurinn undirrótin. En um brekkusnigilinn er það almæli að ef maður nái með fingrinum í horn það sem stendur fram úr miðjum hausi hans, mitt á milli þeirra fjögra horna sem á honum eru og mest ber á, þá komi það allt fram sem maður óskar sér á meðan maður heldur í hornið. En til þess að koma brekkusniglinum til að rétta fram miðhornið, því hann er tregur á því, skal bera gullhring að hausi hans og hafa yfir þenna formála um leið:

 

„Brekkusnigill brekkusnigill,

réttu út miðhorn,

ég skal gefa þér gullhring

á hvert eitt þitt horn.“

 

Sumir segja og að hvort sem maður leggi gull undir brekkusnigil eða lyngorm vaxi bæði ormurinn og gullið unz ormurinn verður ákaflega stór og mannskæður ef ekki er nógu snemma aðgætt og ormurinn drepinn, en ormurinn er svo elskur að gullinu að fyrr lætur hann drepa sig á því en flæma sig af því; þaðan er kominn talshátturinn um nirfla sem fastheldnir þykja á fé sínu, „að þeir lúri á því sem ormur á gulli“. En sé þeir ormar látnir halda lífi, hefur það oftast orðið niðurstaðan að orminum með gullinu hefur verið snarað í vatnsföll eða stöðuvötn og hafast þeir þar æ við síðan. Þess konar ormur er í Lagarfljóti í Múlasýslu, og kannast bæði séra Stefán og Eggert Ólafssynir við hann, enda skal hans þegar getið. Annar á að vera í Skjálfandafljóti, þriðji í Hvítá, fjórði í Skorradalsvatni. Líkur ormur er sagt að sé í Surtshellir og því á þurru landi. En flestar slíkar frásögur eru mjög líkar því sem sagt er um lyngorm Þóru borgarhjartar í sögu Ragnars loðbrókar.

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862)

þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

,,Þegar eg hef greint frá þeim einkennilegu loftsjónum, sem mér hingað til hafa lítillega dottið í hug, þá sný eg mér að því að lýsa  að nokkru merkilegustu skrímslum þessa lands, og er þar fyrstan frægan að telja orm þann eða vatnaslöngu, sem áreiðanlegir menn hafa oft séð í Lagarfljóti á Austurlandi og er afskaplega stór; mætti nefna hann strandorm, norsku heiti, sem samt er ekki rétt viðkunnanlegt, þar sem innlent heiti vantar. Hann er svo óskaplega stór, að lengdin skiptir skeiðrúmum, þótt ótrúlegt sé. Sumir þora jafnvel að segja, að hann sé rastarlangur eða yfir það. Hann sést alltaf á sama stað, með kryppum, ef svo mætti segja, stundum þremur, stundum tveimur, stundum aðeins einni. Hefur þessi óskaplegi búkur skotið sér upp úr hyldjúpu vatninu og sýnt sig, en það fyrirbrigði hefur æfinlega verið löndum vorum fyrirboði einhvers, því að menn halda að það boði venjulega eða spái annaðhvort hallæri, drepsótt, dauða höfðingja eða einhverju öðru slíku; haus hans eða sporður hefur aldrei sézt. Sú saga gengur, að biskup nokkur, eða helgur særingamaður hafi bundið hann þarna niður, og drep eg á það sem hvern annan hégóma eða þvætting. En upp frá því hafði búkur skrímslisins risið upp úr vatninu á vissum tímum og verið um stund sýnilegur aðeins fáum í einu, og var það æfinlega vant að vera svo sem eina stund eða svo; síðan dýfði hann sér aftur hægt og hægt í vatnið og gerði harðan hristing, sem þó ekki henti æfinlega nálæga staði, svo að hús í nándinni hrundu sem í jarðskjálfta og vatnsföll flæddu snöggvast yfir báða bakka, en sjötnuðu síðan með hægð. Það er víst að svipaðar skepnur eða öllu heldur náttúru-skrímsli hafa örðuhvoru sézt í öðrum ám og fljótum í þeim sveitum en samt ekki eins stór né æfinlega eins í laginu. Eitt þeirra er sömuleiðis í Lagarfljóti og er að skapnaði sem vanalegur selur, afskaplega stór: annað er að skapnaði sem ógurlega stór skata. …“

 

Íslensk annálabrot. Undir Íslands. Eftir Gísla Oddsson, biskup í Skálholti. Jónas Rafnar sneri á íslensku. Útg. Þorsteinn M. Jónsson, 1942. Bls. 66-67.