Velkomin á Austurland
Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir stendur á bökkum hins mikla og fagra Lagarfljóts við Egilsstaði og er þannig miðsvæðis á Austurlandi. Hótelið liggur vel við samgöngum í lofti, á láði og legi og er t.d. aðeins klukkustundarlöng ferð flugleiðis milli Reykjavíkur og Egilsstaðaflugvallar, en hótelið er þar skammt frá. Það er einnig upplagt sem miðpunktur ferða um austurhluta Íslands, allt frá hálendi til strandar.
Fagurt og svipmikið umhverfi
Fljótsdalshérað er landmesta sveitarfélag Íslands, 8.884 km2. Í því sameinast öll hugsanleg landgæði, svo sem víðfeðmt hálendi og láglendi, heiðar, fjöll og dalir, auðnir og gróðurvinjar. Hér er eitt stærsta fljót landsins og ýmsar ár, þ.á.m. fengsælar veiðiár, margslunginn skógurinn, ströndin með sinni feiknarlegu sandfjöru þar sem jökulár renna að ósi og hafið er úti fyrir. Jarðfræðin er margbrotin í þessu ævagamla landi sem ekkert haggar, flóran fjölbreytt og sumt finnst ekki annars staðar. Síðast en ekki síst er fjölskrúðugt dýralíf og hreindýrahjarðir og fuglamergð þar svipmest, auk búpenings í grösugum sveitum Héraðsins. Yfir öllu trónir Snæfell, hæst fjalla utan jökla. Hér er í undirbúningi fyrsti jarðminjagarður Íslands; Dyrfjöll Geopark www.dyrfjoll.is. Héraðið er á þrjá vegu landlukið; eru það hinir svipmiklu Austfirðir beggja vegna og svo miðhálendið og Vatnajökulsþjóðgarður www.vatnajokulsthjodgardur.is/ í allri sinni öræfadýrð.
Helstu vegalengdir til og frá Egilsstöðum:
Egilsstaðir – Reykjavík: Með bíl um Öxi, 639 km / Með flugi 50 mínútur.
Egilsstaðir – Seyðisfjörður: 27 km
Egilsstaðir – Reyðarfjörður: 34 km
Egilsstaðir – Neskaupstaður: 71 km
Egilsstaðir – Höfn, um Öxi: 188 km
Egilsstaðir – Höfn, um firði: 256 km
Egilsstaðir – Vopnafjörður, um Hellisheiði: 91 km
Egilsstaðir – Vopnafjörður, Háreksstaðaleið: 131 km
Egilsstaðir – Akureyri: 265 km
Á Egilsstöðum er góður og fjölnota íþróttavöllur, Vilhjálmsvöllur. Þar er frjálsíþróttavöllur með sex hlaupabrautum með gerviefni sem er einnig á stökksvæðum. Innan brautar er knattspyrnuvöllur með grasi. Fellavöllur í Fellabæ er Fifa keppnisvöllur í fullri stærð og uppfyllir öll skilyrði keppnisvallar að undanskildum áhorfendastúkum. Völlurinn er flóðlýstur, með gervigrasi og upphitaður og með búningsaðstöðu. Fellavöllur er aðal æfingasvæði Knattspyrnudeildar Hattar. Á Fljótsdalshéraði eru þrír sparkvellir og standa þeir við grunnskóla sveitarfélagsins, Egilsstaðaskóla, Brúarásskóla og Hallormsstaðaskóla.
Sundlaugar
Við Íþróttamiðstöðina er útisundlaug sem er 25 m löng með tveimur heitum pottum, vaðlaug og rennibraut. Á sumrin opnar sundlaugin mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 6.00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 6:30. Hún lokar kl. 21.30 á kvöldin. Um helgar opnar hún kl. 10.00 og lokar kl. 18.00. Á veturna er opnunartími heldur styttri. Sjá http://fljotsdalsherad.is/index.php?option=com_content&view=article&id=197&catid=144&Itemid=376
Líkamsrækt
Tvær líkamsræktarstöðvar eru á Egilsstöðum; Héraðsþrek í íþróttamiðstöðinni, Tjarnarbraut 26 www.fljotsdalsherad.is/ithrottamannvirki/index.php og Heilsuefling, Lyngási 12 www.facebook.com/crossfitahh/?fref=ts
Golf
Á Fljótdalshéraði er starfræktur Golfklúbbur Fljótsdalshéraðs. Golfvöllur klúbbsins, Ekkjufellsvöllur, er staðsettur í Fellunum norðan megin við Lagarfljótið, í um 3 km fjarlægð frá Egilsstöðum og um 1 km sunnan við Fellabæ. Völlurinn er 9 holur, um 2.400 metrar og parið 35 högg. Völlurinn býr yfir mikilli náttúrufegurð og frábæru útsýni. Sjá www.golf.is/pages/klubbar/klubbasida/
Hestamennska
Í sveitarfélaginu eru tvö hesthúsasvæði. Annars vegar í Fossgerði þar sem er pláss fyrir um 100 hesta í hesthúsum. Þar er einnig gott æfingagerði ásamt annarri nauðsynlegri aðstöðu er tengist hestamennsku. Fossgerði er ca. 4 km norðan við Egilsstaði. Hins vegar rekur Hestamannafélagið Freyfaxi mótssvæði á Stekkhólma við Iðavelli, sem er sunnan við Egilsstaði, á leiðinni í Hallormsstað. Þar er reiðhöll. Hestaleiga er m.a. í Hallormsstað. Leitið upplýsinga hjá starfsfólki.
Skíði
Gistihúsið – Lake Hotel Egilsstadir býður upp á gönguskíðaleigu. Í samstarfi við Snæhéra, félagsskap áhugafólks um skíðagöngu á Fljótsdalshéraði, má nýta sér gönguskíðaspor við hótelið, í Selskógi ofan við Egilsstaði og við skíðaskála Snæhéra á Fjarðarheiði Egilsstaðamegin þegar aðstæður leyfa. Leitið frekari upplýsingar hjá starfsfólki Gistihússins – Lake Hotel Egilsstadir í síma 471-1114.
Skíðafélagið í Stafdal er sameiginlegt skíðafélag Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Æfingaaðstaða félagsins er í Stafdal í Seyðisfirði. Þar eru brekkur við allra hæfi og jafnt fyrir skíðafólk og snjóbrettaiðkendur. Þangað er 20 mínútna langur akstur. Mjög gott skíðasvæði er einnig í Oddskarði og eru þeir gjarnan kallaðir austfirsku alparnir. Þangað er klukkustundarlangur akstur. Sjá www.stafdalur.is/ og www.oddsskard.is/
Skotfimi
Skotfélag Austurlands er starfandi á svæðinu og er æfingasvæði þess í Þuríðarstaðalandi sem er skammt frá leiðinni í Mjóafjörð. Sjá www skaust.net/
Akstursíþróttir
Akstursklúbburinn Start hefur verið öflugur á svæðinu og stendur árlega fyrir mótum bæði snjósleðamótum að vetri og torfærukeppni að sumri. Sjá www.easthighlanders.is og www.ais.is/um-akis/
Hallormsstaðaskógur
www.skogur.is/thjodskogarnir/austurland/nr/31
Hallormsstaðaskógur er vinsælt útivistarsvæði í fjölbreyttu landslagi. Í skóginum eru um 40 km af gönguslóðum og margar merktar gönguleiðir sem finna má á gönguleiðakorti. Fjölskylduvænt trjásafn með yfir 70 trjátegundum er einnig að finna á Hallormsstað. Í skóginum er hin víðkunna Atlavík þar sem löngum voru haldnar útisamkomur en þar er nú vinsælt tjaldsvæði. Ferjan Lagarfljótsormurinn sigldi um tíma á milli Atlavíkur og Egilsstaða og í víkinni hefur líka verið rekin bátaleiga. Í skóginum er auk þess að finna leiktæki og góð grillsvæði.
(upplýsingar að mestu af vefnum www.fljotsdalsherad.is)
Keppendur eru ræstir úr Hallormsstaðarskógi klukkan 9:00 að morgni og hjóla þaðan út í Egilsstaði, norður yfir Fljót, upp Fellin og inn í Fljótsdal. Þar velja menn um lengri eða styttri hring en endamarkið hefur verið í Hallormsstaðarskógi.
Umhverfis Orminn langa sem er 68 km hringur er farið yfir nýjustu brúna yfir Jökulsá í Fljótsdal, neðan við Hjarðarból (utan við Hengifoss). Fyrstu tæplega 40 km eru á bundnu slitlagi, síðan tekur við um 20 km malarvegur og loks endað á klæðningu.
Þessa vegalengd er bæði hægt að taka í einstaklingskeppni og liðakeppni. Í liðakeppni keppa þrír saman í liði og er hringnum þá skipt í þrjá leggi um 26 km, um 24 km og um 20 km.
Hörkutólahringurinn er 103 km hringur, farin sama leið og í styttri hringnum, þar til kemur að ,,nýju” brúnni yfir Jökulsá í Fljótsdal, þá er haldið áfram inn Norðurdal og farið yfir innstu brú yfir Jökulsá í Fljótsdal, (9 km kafli á grófum malarvegi) og haldið áleiðis út Fljótsdal og út í Hallormsstaðarskóg (um 8 km á malarvegi og svo bundið slitlag síðustu 5 km). Eingöngu er boðið upp á einstaklingskeppni í þessari vegalengd.
Keppnin er hluti af Ormsteiti og er einatt líf og fjör í Hallormsstaðaskógi þegar keppendur koma í mark.
Keppt er í flokkum karla og kvenna og lágmarksaldur keppenda 14 ára. Í liðakeppni er einnig keppt í opnum flokki, þ.e. lið mega vera blönduð jafnt sem lið karla og lið kvenna.
Af vef UÍA: www.uia.is
Sveitarfélagið er mjög víðfeðmt og er nú það landmesta á Íslandi. Stærð þess er 8.884 ferkílómetrar. 1. desember 2013 voru íbúar sveitarfélagsins 3.464. Miðkjarna Fljótsdalshéraðs mynda þéttbýlin Egilsstaðir og Fellabær sem greiðar samgöngur á landi og í lofti hafa gert að virkum vegamótum og þar hefur því vaxið upp ýmiss konar starfsemi bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila. Um miðbæ Egilsstaða liggja helstu krossgötur Austurlands og umferðarmestu gatnamót þjóðvega í fjórðungnum.
Flestir íbúa Fljótsdalshéraðs starfa við þjónustu og opinbera starfsemi og á Egilsstöðum og í Fellabæ hefur þróast samgöngu-, verslunar- og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins og alls Mið-Austurlands.
Flugvöllurinn á Egilsstöðum gegnir mikilvægu hlutverki, meðal annars vegna ferðaþjónustu á svæðinu. Í sveitarfélaginu er að finna fjölbreytta flóru hótel, gisti- og veitingastaða.
Sauðfjár- og kúabúaskapur er stundaður á rúmlega 100 býlum og þá fer skógrækt fram á um 80-90 jörðum um þessar mundir.
Í sveitarfélaginu er heilsugæslustöð, dvalarheimili aldraðra og sjúkrahús, tannlæknastofa og dýraspítali. Skólastarf hefur sett svip sinn á samfélagið til margra ára. Handverks- og hússtjórnarskólinn á Hallormsstað hefur starfað í áratugi. Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur starfað frá 1979 en þar eru nemendur á fimmta hundrað. Skrifstofa Þekkingarnets Austurlands, sem nú heitir Austurbrú er með aðsetur í sveitarfélaginu, en það býður upp á margvísleg námskeið og fjarnám á háskólastigi. Á Fljótsdalshéraði eru leikskólar starfræktir á fimm stöðum en grunnskólastarf fer fram á fjórum stöðum. Nám í tónlistarskólum má hins vegar stunda á fjórum stöðum á vegum þriggja tónlistarskóla. Sveitarfélagið rekur bókasafn og minjasafn, íþróttamiðstöð og íþróttahús, frjálsíþróttavöll og knattspyrnuvelli, sundlaug, félagsmiðstöðvar, félagsheimili og þjónustumiðstöð. Hitaveita Egilsstaða og Fella sér þéttbýlinu fyrir heitu og köldu vatni og sér einnig um rekstur fráveitu. www.fljotsdalsherad.is